Leikskólabörn og líkamsímynd

Sjálfsmynd barna þroskast mjög snemma á ævinni. Strax á öðru aldursári byrjar sjálfstæðisbaráttan, börn fara að átta sig á eigin færni og vilja í auknum mæli leysa verkefni á eigin spýtur. Sjálfsmynd ungra barna er yfirleitt lýsandi frekar en dæmandi, það er að segja þau geta lýst ákveðnum eiginleikum sínum sbr. „Ég er með krullur/freknur/brún augu“ en leggja ekki mat á þá og eiga raunar erfitt með að leggja mat á útlit sitt. Frá um þriggja ára aldri fara börn að átta sig á hvaða hópum þau tilheyra og eru jákvæðari gagnvart öðrum börnum sem líkjast þeim sjálfum.

Rannsóknir[1]
sýna að börn allt niður í þriggja ára aldur eru með neikvæð viðhorf gagnvart feitum. Þetta er yfirleitt metið með því að láta þau velja milli mynda af fígúrum í mismunandi líkamsstærð og benda á þá sem þeim líkar best/verst við eða sem þau telja að hafi ákveðna eiginleika. Niðurstöður benda til að þau velji grannar eða meðalstórar fígúrur frekar en feitar, eigna feitum fígúrum frekar neikvæða eiginleika og kjósa frekar grennri leikfélaga svo eitthvað sé nefnt. Þrátt fyrir þetta eiga börn á leikskólaaldri almennt erfitt með að meta sitt eigið útlit eins og áður sagði. Þau eiga m.a. erfitt með að bera kennsl á þá fígúru sem líkist þeirra líkamsstærð best og að segja til um skoðun sína á eigin holdafari. Þó er hópur barna á leikskólaaldri sem er óánægður með útlit sitt og líkama og þekkir til aðferða til að grenna sig.

Börn eru mjög snemma útsett fyrir hugmyndum um hvers konar útlit er ákjósanlegt og hvað þykir síður eftirsóknarvert. Kvenkyns leikbrúður eru alla jafna spengilegar með langa leggi, stór augu og sítt hár, en hinar karlkyns yfirleitt vöðvastæltar og mittisgrannar. Myndefni ætlað börnum hvort sem er í bókum, sjónvarpi eða tölvuleikjum sýnir oftar en ekki einsleita líkama og/eða sýnir feita líkama í neikvæðu ljósi. Feitu karakterarnir eru oftar en ekki ýmist aðhlátursefni eða illmenni. Rannsóknir benda til að fitusmánun sé raunar algengari í sjónvarpsefni ætlað börnum heldur en fullorðnum. Áhorf á útlitsmiðað efni getur haft neikvæð áhrif á sjálfsmynd barna frá unga aldri. Gott er fyrir foreldra að fylgjast með því efni sem börn eru að horfa á og vera vakandi fyrir slíkum skilaboðum og ræða þau við börn eftir aldri þeirra og þroska.

Það er erfitt að vernda börn alfarið fyrir þessum skilaboðum enda eru þau að mörgu leyti innbyggð í menningu okkar. Hins vegar eru áhrif foreldra sérlega mikil á þessum aldri og þeir spila stórt hlutverk í mótun sjálfsmyndarinnar.

Hér eru nokkur ráð til foreldra:

Kenndu barninu þínu að fjölbreytni í útliti og líkamsvexti sé eðlileg. Bókin Kroppurinn er kraftaverk er ætluð til að efla jákvæða líkamsímynd barna og hentar vel til að lesa með 3-7 ára börnum. Á síðunni Líkamsvirðing fyrir börn eru einnig upplýsingar og fróðleikur um sama efni eftir höfund bókarinnar, Sigrúnu Daníelsdóttur sálfræðing.

Hrósaðu barninu þínu og öðrum fyrir innri eiginleika frekar en útlit. Talaðu við barnið um hvað felst í því t.d. að vera dugleg, heiðarlegur osfr. Komdu auga á fyrirmyndir fyrir bæði þig og barnið sem hafa eftirsóknarverða eiginleika sem eru ekki útlitstengdir. Finndu jákvæða eiginleika hjá þessum fyrirmyndum sem barnið á eitthvað sameiginlegt með, t.d. „Sjáðu hvað hann er góður við vin sinn, alveg eins og þú varst góð við litlu systur í gær“.

Sýndu gott fordæmi. Ekki forðast að láta mynda þig, ekki gretta þig í spegilinn eða bölva vigtinni. Hugsaðu um hvernig þú talar um mataræði og hreyfingu á heimilinu og forðastu að gagnrýna eigin útlit/líkama og annarra. Börn heyra og skilja miklu meira og miklu fyrr en við áttum okkur oft á. Ef barnið þitt segir t.d. að þú, það sjálft eða einhver annar sé með feitan maga, reyndu að bregðast ekki illa við heldur taktu því sem hlutlausri lýsingu eða nýttu tækifærið til umræðu um fjölbreytileika.

Skapaðu umhverfi þar sem barninu gefst tækifæri til að nýta styrkleika sína, borða hollan mat og hreyfa sig sér til ánægju. Kenndu barninu á að hlusta á líkama sinn, hvenær hann er svangur, saddur, þreyttur, o.s.frv. Gott er að leyfa barninu að hafa eitthvað að segja um hvað það borðar, t.d. að það megi velja ávöxt úr búðinni og forðumst að gera kröfur um að klára af disknum. Forðumst einnig að flokka mat í góðan og vondan, hollan og óhollan en fræðum börn um heilbrigðar lífsvenjur og mikilvægi þess að borða fjölbreyttan mat sem veitir okkur orku.

Á vef Landslæknisembættisins má finna yfirlit yfir þætti sem hafa styrkjandi og veikjandi áhrif á sjálfsmynd. Þetta eru þættir eins og þátttaka í tómstundastarfi, jákvætt uppeldi, fjölskylduumhverfi og samfélagsleg staða. Kynntu þér hvaða áhrif þú getur haft til að bæta eða styðja við góða sjálfsmynd barnsins frá byrjun.


Börn eru mjög snemma útsett fyrir hugmyndum um hvers konar útlit er ákjósanlegt og hvað þykir síður eftirsóknarvert.
Það er erfitt að vernda börn alfarið fyrir þessum skilaboðum enda eru þau að mörgu leyti innbyggð í menningu okkar. Hins vegar eru áhrif foreldra sérlega mikil á þessum aldri og þeir spila stórt hlutverk í mótun sjálfsmyndarinnar.