Innri gagnrýnandinn

Hugsanir okkar móta veruleikann og okkur sjálf. Ef mér finnst teikningin mín ljót í myndmennt, langar mig ekki að sýna mömmu hana þegar ég kem heim. Ef ég sýni mömmu hana ekki, fæ ég ekki hrós fyrir teikninguna og hún fer ekki upp á ísskáp. Ef ég held að Jói nenni ekki að leika við mig eftir skóla, þá hætti ég við að spyrja eftir honum. Ef ég spyr ekki eftir Jóa og ef hann hugsar það sama um mig og spyr ekki eftir mér, þá leikum við ekki eftir skóla og verðum ekki vinir.

Hér má sjá áhugavert myndband um tengsl hugsana og tilfinninga:

Sjálfsmatið okkar byggir á skoðunum okkar á okkur sjálfum. Hvað okkur finnst um okkur. Allt eru þetta hugsanir. Við getum stundum flokkað hugsanir okkar í ákveðin hlutverk. Eitt þeirra er innri gagnrýnandinn. Stundum er innri gagnrýnandinn byggður á fyrirmynd, t.d. foreldri, systkini, vini eða ömmu eða afa. Stundum er hann okkar eigin hugarsmíð frá a til ö.

Hverju sem líður er ljóst að ef ég er að hugsa að ég muni falla á prófinu á morgun, að þá fer ég að kvíða fyrir prófinu á morgun. Ef ég kvíði prófinu eru meiri líkur á því að ég hætti við að fara í prófið. Ef ég er að hugsa um að kennarinn hafi verið ósanngjarn að hafa þetta próf á mánudegi og að kennslan fyrir prófið hafi ekki verið nógu góð, er ég sennilega frekar pirruð en kvíðin gagnvart prófinu. En ef ég er að hugsa um að ég muni falla á þessu prófi, eins og ég fell á öllum prófum (jafnvel þó það sé ekki rétt) og ég held áfram að hugsa að ég sé heimsk og geti ekkert lært, þá verð ég sennilega meira döpur en pirruð eða kvíðin.

Svo gæti ég verið með allar þessar hugsanir í gangi á sama tíma og verið kvíðin, pirruð og döpur gagnvart prófinu, kennaranum og sjálfri mér á sama tíma.

Hverju sem líður er ljóst að hugsanir okkar skapa tilfinningar okkar og stýra hegðun okkar. Á þann hátt móta þær raunveruleikann, ekki með beinum hætti. Og það er mikilvægur munur. Ég mun ekki falla á prófinu á morgun, bara af því að ég held að ég muni falla og ekki heldur bara af því að ég kvíði prófinu. Ég er ekki heimsk bara af því að ég held að ég sé það. En ef ég hegða mér í samræmi við hugsanir og tilfinningar mínar, án þess að velta fyrir mér hvort það sé gagnlegt eða ekki, þá munu hugsanir mínar og tilfinningar skapa framtíð mína. Ég get valið að fara í prófið jafnvel þó að ég sé að hugsa að ég muni falla og líði eins og ég muni falla.

Innri gagnrýnandinn vill að þú skammist þín. Hann segir þér að þú sért heimsk, feit, ljót og leiðinleg. Hann segir þér að allir strákarnir séu með flottari brjóstvöðva en þú, að þú sért lítill og asnalegur. Að enginn vilji tala við þig. Að öllum sé sama hvað þér finnist. Að enginn vilji hafa þig með og öllum sé sama þó þú mætir. Að þú getir ekki orðið það sem þig langar eða klætt þig eins og þú vilt.

En þetta eru bara hugsanir. Þú ert ekki það sem þú hugsar, þú ert það sem þú gerir. Gerðu það sem þig langar að gera, segðu það sem þig langar að segja, prófaðu að mæta og gáðu hvað gerist... Innri gagnrýnandinn lærir af reynslunni, sýndu honum að hann viti EKKERT hvað hann er að tala um.

Hverju sem líður er ljóst að hugsanir okkar skapa tilfinningar okkar og stýra hegðun okkar. Á þann hátt móta þær raunveruleikann, ekki með beinum hætti. Og það er mikilvægur munur.