Holdafar og einelti

Stríðni og einelti á grundvelli holdafars er í dag orðið verulegt vandamál meðal barna og unglinga. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á að um sé að ræða algengustu tegund stríðni og eineltis og ber bæði börnum, foreldrum þeirra og skólastarfsfólki saman um það, m.a. hér á landi[1]
[2]
.

Í handbók fyrir starfsfólks skóla, Ofbeldi gegn börnum – hlutverk skóla, sem gefin er út á vegum Námsgagnastofnunar er til að mynda sérstaklega tekið fram að feit börn þarfnist sérstakrar umhyggju vegna þeirra neikvæðu viðhorfa sem mæta þeim[3]
. Um er að ræða einn anga af fitufordómum sem er kerfislægt vandamál sem birtist á öllum sviðum samfélagsins. Umræðan hingað til hefur beinst í þá átt að um sé að ræða eðlilega og náttúrulega afleiðingu af holdafari barnanna, en ekki af þeirri mismunun sem þau upplifa.

Neikvæð viðhorf gagnvart feitu fólki af öllum aldri eru oft réttmæt á þann veg að þau þjóni því hlutverki að hvetja það til að færa heilsuvenjur sínar í betra horf og léttast. Rannsóknir hafa þó sýnt trekk í trekk að það eigi ekki við rök að styðjast. Í raun eru afleiðingar þess að verða fyrir neikvæðu viðhorfi eða mismunun vegna holdafars öfugar og hafa þær sérstaklega mikil neikvæð áhrif á börn og ungmenni. Börn sem upplifa þessi neikvæðu viðhorf eru t.a.m. líklegri til að þróa með sér þunglyndi, kvíða, neikvæða sjálfsmynd og líkamsmynd sem og að misnota vímuefni. Sjálfsskaði, sjálfsvígshugsanir og sjálfsvígstilraunir eru að sama skapi algengari meðal feitra barna. Þessar niðurstöður haldast eftir að stjórnað hefur verið fyrir aldri, kyni og líkamsþyngdarstuðli sem gefur sterklega til kynna að ekki sé um að ræða afleiðingar þess að vera feitur heldur afleiðingar stríðni og mismununar sem börnin upplifa fyrir að vera feit. Aðrar afleiðingar eru félagsleg einangrun, skólaforðun og slakari námsárangur, óheilbrigðari matarvenjur, minni líkamleg hreyfing og átraskanir[1][4]
. Fitufordómar gagnvart börnum og ungmennum hafa því verulegar líkamlegar og andlegar afleiðingar sem þarf að stemma stigu við.

Einelti á grundvelli holdafars sker sig líka úr að því leytinu til að það eru ekki einungis jafnaldrar sem eru gerendur þess, heldur einnig foreldrar, ættingjar og vandamenn sem og skólastarfsfólk. Við það bætast stöðug skilaboð frá umhverfinu s.s. í sjónvarpi, útvarpi og á samfélagsmiðlum um að feitt fólk sé latara, heimskara og ljótara en annað fólk[1]. Umfjöllun um heilsufar feits fólks hefur verið áberandi í umræðunni undanfarna áratugi og er henni oft ætlað að skapa reiði og viðbjóð meðal þeirra sem taka þátt í henni[3]. Rannsóknir hafa jafnframt bent til þess að stríðni á grundvelli holdafars minnki ekki eftir því sem börnin eldast og komast á fullorðinsár[4].

Ef að barnið þitt verður fyrir stríðni og einelti á grundvelli holdafars er mikilvægt að muna að í samfélagi sem einkennist af neikvæðu viðhorfi gagnvart feitu fólki á það sér fáa málsvara. Það er því brýnt að foreldrar taki að sér það hlutverk í lífi barnsins og vinni með starfsfólki skólans og foreldrum þeirra barna sem í hlut eiga. Varast skal að færa ábyrgðina fyrir eineltinu yfir á þolandann s.s. með að álykta að barnið skeri sig úr vegna holdafars síns og því sé eineltið að einhverju leyti eðlilegt eða réttmætt. Barnið á ekki að þurfa að breyta líkama sínum í þeim tilgangi að stöðva eineltið, jafnvel þó það sé á þeim grundvelli að það hafi heilsufarslegar bætingar í för með sér. Hvorki holdafar né heilsufar barna hefur nokkuð með rétt þess til að lifa lífi sínu án áreitni og ofbeldi að gera. Sá réttur er óumdeilanlegur.

Mikilvægt er að hlúa að feitum börnum sem verða fyrir stríðni og einelti. Sjá „Hvað ef barnið mitt er feitt?” fyrir frekari upplýsingar.


Afleiðingar þess að verða fyrir neikvæðu viðhorfi eða mismunun vegna holdafars eru öfugar og hafa þær sérstaklega mikil neikvæð áhrif á börn og ungmenni.
Einelti á grundvelli holdafars sker sig líka úr að því leytinu til að það eru ekki einungis jafnaldrar sem eru gerendur þess, heldur einnig foreldrar, ættingjar og vandamenn sem og skólastarfsfólk.